Klaufabárðarnir diskur 1-3
Hvað eru Klaufabárðarnir?
Klaufabárðarnir eru bráðfyndnir brúðuþættir sem voru framleiddir í gömlu Tékkóslóvakíu á árunum 1979-1990. Þeir njóta vinsælda um allan heim og voru sýndir á RÚV á níunda áratugnum. Nú, rúmlega þrjátíu árum eftir að framleiðsla, hófst eiga þessir ljúfu kallar ennþá erindi inná heimili landsins. Söguhetjurnar – hinir seinheppnu nágrannar – komu í raun fyrst fram á sjónarsviðið sem aðalsöguhetjur brúðumyndarinnar “The Tinkers” sem sýnd var í tékkneska ríkissjónvarpinu árið 1976. Þremur árum síðar hófu svo göngu sína þættirnir “A je to”” eða “Hana nú!” sem eru þættirnir um Klaufabárðana sem nú eru komnir á dvd á Íslandi.
Hvað er svona skemmtilegt við Klaufabárðana?
Klaufabárðarnir hafa sérstakt lag á að koma sér í klandur. Þeir eru ekki sérlega handlagnir en þó með eindæmum hugvitssamir þegar leysa á aðkallandi vandamál á heimilinu eins og að koma þvottavél upp á þriðju hæð eða fela stóran blett í stofuteppinu. Jákvæðnin sem einkennir söguhetjurnar höfðar jafnt til barna nútímans og þeirra sem voru börn þegar þættirnir voru sýndir á RÚV í den.
Hvaða aldurshóp hentar þetta barnaefni?
Börn og fullorðnir virðast hafa jafngaman að Klaufabárðunum. Í þáttunum er ekkert ofbeldi, enginn hávaði og engin neikvæðni. Þeir yngstu í fjölskyldunni geta notið þáttanna því þar er ekkert talað heldur sér tónlistin um að túlka stemminguna. Þættirnir voru reyndar hugsaðir í upphafi sem grínþættir fyrir fullorðna í tékkóslóvakíska ríkissjónvarpinu en reyndust höfða til allrar fjölskyldunnar. Segja má að Klaufabárðarnir hafi “óvart” orðið að barnaefni.
Af hverju er annar þeirra stundum í grárri og stundum í rauðri peysu?
Á mynddiskunum þremur eru 35 þættir, þar af voru 28 framleiddir á árunum 1979-1985. Sjö þættir skera sig úr, en þeir voru framleiddir á 1989-1990. Í þessum “nýju” þáttum (sem eru á disk 3) eru Klaufabárðarnir fluttir út blokk í einbýli og tæknileg áferð þáttanna er önnur. En glöggir áhorfendur taka líka eftir því að annar þeirra félaga hefur skipt gráu rúllukragapeysunni út fyrir rauða. Upprunalega áttu Klaufabárðarnir að vera í gulri og rauðri peysu. Þar sem ritskoðun var við lýði í gömlu Tékkóslóvakíu var því breytt þar sem einhverjir töldu víst að með litavalinu væri verið að vísa í samskipti stórveldanna Kína (gult) og Rússlands (rautt). Á árum Flauelsbyltingarinnar (1989-1990) og mikilla þjóðfélagsbreytinga í gömlu Tékkóslóvakíu þótti hins vegar við hæfi að draga fram rauðu peysuna og láta alla ritskoðun sem vind um eyru þjóta.
Hreinræktuð skemmtilegheit frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.
-Davíð Þór Jónsson grínisti.
“Klassísk snilld.”
-Jón Gnarr grínisti og borgarstjóri.